segunda-feira, abril 16, 2007

Tímarit Kringlunnar

Skoðiði þetta og lesið svo: Hvað fer í gegnum huga þinn? Já, ég fékk þetta tímarit inn um lúguna í síðustu viku eins og örugglega flestir landsmenn. Var ekkert að pæla í því sérstaklega, nema það að Kjartan Dúi fyrrum samstarfsfélagi, er orðinn módel. Ekkert nema gott um það að segja. Svo er blaðið búið að liggja á elhúsborðinu síðan. Eftir að hafa verið með forsíðuna fyrir augunum á hverjum morgni í nokkra daga fór ég allt í einu að pæla: ,,Á ég að vera svona eftir að hafa fætt þrjú börn?" Jú, jú, glæsileg kona og allt það, en þetta er svo óraunhæft að það hálfa væri nóg. Hvaða móðir eða kona yfirleitt situr svona á eldhúsgólfinu heima hjá sér? Hvernig væri að hafa kjólinn aðeins styttri?
Við erum orðin svo heilaþvegin að við tökum ekki eftir því. Þetta er normið, þetta er það sem við eigum að sækjast eftir og svo erum við hissa á því hvað við erum óánægðar með okkur. Við erum aldrei nógu mjóar, aldrei nógu neitt. Svo ef að við vogum okkur að gagnrýna eitthvað svona erum við fordæmdar: ,,Hvaða rugl er í þér kerling, þetta er bara sakleysisleg mynd!" Það getur svo sem vel verið en allar myndir hafa einhver skilaboð og ef við horfum á nógu margar svona myndir síast inn þessi skilaboð: ,,ég verð að vera mjó og flott, þá verð ég ánægð með sjálfa mig."
Og ég spyr....hvenær kemur sá dagur!?