quarta-feira, outubro 17, 2007

LYSTIN AÐ LIFA

Við Berghildur forsýndum okkar fyrstu heimildarmynd laugardaginn 13. október í Regnboganum. Saman komu milli 90 og 100 manns: fjölskyldur okkar, aðstandendur myndarinnar og að sjálfsögðu ættingjar og vinir Örnu, svo ekki sé talað um hana sjálfa. Allir töluðu um hvað myndin væri áhrifamikil og vel gerð, en á meðan hamingjuóskunum rigndi yfir okkur sá maður tárin í augum ættingja og vina Örnu. Sumir hafa kannski óttast um að umræðan um Örnu og myndina yrði að einhverju leyti neikvæð og myndi skaða hana og fjölskylduna. Kannski hefur fólk heldur ekki alveg áttað sig á hvað hún hefur í raun þurft að ganga í gegnum.

Markmið Örnu með því að koma fram í myndinni var alltaf það að vera forvörn fyrir aðra og var ég sannfærð frá upphafi að það myndi takast. Satt að segja bjóst ég samt alveg eins við að einhverjir einstaka misfróðir menn myndu koma með niðrandi athugasemdir, en það er öðru nær. Síðan myndin var frumsýnd á RÚV á sunnudaginn hafa undirtektirnar einungis borið vott um skilning og virðingu. Það er alveg sama hvert ég fer þá er fólk að tala um myndina. Í vinnunni var sagt við mig: ,,Ekki vissi ég að þetta væri svona alvarlegur sjúkdómur," og ég held að margir séu að átta sig á að þetta er ekkert til að gantast með. Svo fór ég í fiskbúðina, í sjúkraþjálfun og fund hjá Rauða krossinum og á öllum þessum stöðum hefur fólk minnst á það við mig hvað þetta væri þarft verk, hvað Arna væri ótrúlega hugrökk og í mörgum tilfellum hefur fólk talað um einhvern sem það þekkir sem er með átröskun. Þetta snertir nefnilega okkur öll að einhverju leyti og margir hafa gælt við þessa sjúkdóma einhvern tímann á lífsleiðinni.

Nokkuð margir virðast samt hafa misst af myndinni og því spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að endursýna hana. Hver ætli viðbrögð fólks séu við því?

ÁFRAM ARNA! ÞÚ ERT EINSTÖK!